Nú er morgun og jólasveinn númer tvö að koma til byggða.Fyrir 22 ári hljóp ég niður og athugaði í skóinn minn en í skelfingar angist uppgötvaði ég það að jólahelvítið hafði gleymt mér og rauk upp aftur og til mömmu hágrenjandi (man reyndar ekki hvort ég hafi grátið en það hlýtur að vera) og sagði mömmu nýjustu fréttir. Það kom undarlegt fát á hana en hún sagði mér að bíða rólegum og hún skyldi fara niður og athuga málið. Ha? Er mamma í slagtogi við þessa kalla sem skilja eftir nýbakaðar karamellur handa mér í rauða skótauinu (mamma bakaði oft karamellur og setti í skóinn,þetta gerist sko jólin 1980 og þá var engin selectverslun komin í Geiradalinn í Austur-Barðastrandasýslunni og er reyndar ekki enn komin. Og mun sennilega aldrei koma). Þessa kalla sem á einhvern furðulegan máta skildu aldrei eftir sig skóför fyrir utan gluggann,mamma sagði að þeir máðu förin eftir sig en ég keypti það ekki því það tæki svo langan tíma að komast á næstu bæi. Minn heimur var bara sveitin og búið,datt ekki í hug að hann færi einhvert annað. Eina fólkið sem ég þekkti sem ekki var í sveitinn voru afi og amma sem bjuggu á Grundarfirði,þau voru svo gömul að jólasveinninn var ekkert að púkka upp á þau. Alla vegna þá fer mamma niður og ég býð. Nei djók maður,auðvitað elti ég hana og finn hana í stofunni að fikta í skóinum mínum. Nákvæmlega þarna rennur upp fyrir mér sannleikurinn. Þessi jólasveinn er bara bull. Móðir mín tjáir mér að nú fái ég ekkert aftur í skóinn af því að ég sé orðinn svo stór og þurfi ekkert í skóinn. Undirritaður var nú ekkert alveg sammála því og heimtaði að fá sælgæti í skóinn áfram,mamma samþykkti það og örugglega dauðfegin að þurfa ekki að vakna alltaf á undan mér núna því börn sem bíða eftir jólasveininum eru kannski ekki alveg að sofa út neitt. Árið eftir fæddist bróðir minn og var hann ávísun á mörg ár af rauðsokkunammi.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home